
Í Landnámu er fullyrt að Ingólfur Arnarson hafi numið land í Reykjavík. Hafi Ingólfur verið til, hvar bjó hann þá í borginni? Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós landnámsbæi í miðborginni og á horni Aðalstrætis og Túngötu fannst fyrir fáeinum árum skálarúst frá 10. öld. Merkar fornminjar eru einnig á Alþingisreitnum. Enn fremur var lengi fjölbreytt mannlíf í Viðey. Þar var um tíma munkaklaustur af Ágústínusarreglu sem stofnað var snemma á 13. öld.
Steinunn J. Kristjánsdóttir og Orri Vésteinsson, prófessorar við Sagnfræði- og heimspekideild, leiða göngu um miðborgina þar sem skyggnst verður inn í upphaf landnáms og horft yfir sundið til Viðeyjar. Lagt verður af stað frá Aðalstræti 16 kl. 11 og gengið um miðborgina, Aðalstræti, Alþingisreitinn, Tjarnarsvæðið og hafnarsvæðið með útsýni til Viðeyjar. Gert er ráð fyrir að ferðin taki um það bil tvær klukkustundir.Ferðin er farin í samvinnu við Ferðafélag barnanna.
Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða sex talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi háskólans og Ferðafélagsins.