
Hrafnhildur Ævarsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í líffræði. Verkefnið ber heitið Hegðun, félagsgerð og fæðuval íslensku geitarinnar.
Rannsóknin fór fram á tveimur bæjum, Brennistöðum í Flókadal og Háafelli í Hvítársíðu þar sem stærsta geitahjörð landsins er. Á Brennistöðum var hegðun geita flokkuð, henni lýst og rannsakað hvernig hópur 40 fullorðinna geita ásamt kiðlingum, sem var haldið innan lítillar girðingar (1.6 ha), varði tíma sínum. Á Háafelli var fylgst með hópi geita sem telur um 186 fullorðin dýr í stórri girðingu (300 ha) og mælt hvernig sá hópur varði sínum tíma, hvernig hann nýtti sér beitilandið og myndaði hópa. Á Háafelli var einnig fæðuval geitanna metið út frá plöntuleyfum í skít.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hópamyndun geita á Háafelli byggði hvorki á skyldleika né aldri og dreifing þeirra var tilviljanakennd um hagann. Ákveðið flæði einkenndi hópana og stærð þeirra og samsetning breytist eftir tíma dags. Mestur tími fór í beit á báðum stöðum, þó heldur minni á Brennistöðum en Háafelli enda beitarsvæði þeirra mikið stærra. Niðurstöður greininga á plöntuleyfum í skít sýndu að geiturnar átu helst grös en jurtir, starir og smárunnar komu fram í mun minna mæli.
Aðalleiðbeinandi: Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.
Meðleiðbeinandi: Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Prófdómari er Ólafur R. Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands.