
Sveinbjörn Óskarsson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í tölvunarfræði. Fyrirlesturinn ber heitið Rafræn skilríki á snjalltæki.
Öryggi á snjalltækjum (snjallsímar og spjaldtölvur) virðist ekki vera mikið áhyggjuefni hefðbundinna notenda í dag. Almennir notendur eru daglega að framkvæma ýmsar aðgerðir og skiptast á viðkvæmum upplýsingum við umheiminn sem má auðveldlega stela. Með því að gefa út rafræn skilríki á þessi tæki, sem hafa verið tengd við auðkennda notendur með traustri utanaðkomandi auðkenningu, má auka öryggi mikið í rafrænum samskiptum. Rafræn skilríki gera notendum mögulegt að framkvæma örugga auðkenningu við vefi og vefþjónustur, auk þess að dulrita og undirrita gögn með auðveldum hætti.
Í þessu verkefni er útfært kerfi og hugbúnaður sem gerði þetta mögulegt og notendavænt fyrir almenna notendur, með forritun á .Net bakendakerfi og Android biðlara. Áhersla var lögð á að nota viðurkennd og stöðluð reiknirit við dulritun og samskipti við bakendakerfi. Kerfið styður rafrænar undirritanir, dulritun og auðkenningu á hæsta öryggisstigi.
Leiðbeinendur: Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Hí og Snorri Agnarsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ.
Prófdómari: Dr. Kristján Valur Jónsson