Clik here to view.

Föstudaginn 4. apríl næstkomandi fer fram doktorsvörn við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Teitur Jónsson doktorsritgerð sína: „Þróun bits og rýmis í tannbogum. Breytingar frá unglingsárum til fullorðinsaldurs og langtímaáhrif tannréttinga“ (Development of occlusal traits and space conditions. Changes from adolescence to adulthood and long-term effect of orthodontic treatment).
Andmælendur eru dr. Lars Bondemark, prófessor og deildarforseti við Tannlæknadeild Háskólans í Malmö, og dr. Sheldon Peck, prófessor við Tannlæknadeild Háskólans í Chapel Hill í Norður-Karólínu. Leiðbeinandi var dr. Þórður Eydal Magnússon, prófessor emeritus og sérfræðingur í tannréttingum, og umsjónarkennari var dr. Peter Holbrook, prófessor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.
Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, stjórnar athöfninni, sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í aðalbyggingu og hefst klukkan 13.00.
Ágrip
Helstu spurningar rannsóknarinnar snúa að því hvort marktækar breytingar verði á bitafstöðu og rými í tannbogunum frá unglingsárum til fullorðinsaldurs og einnig hver séu langtímaáhrif tannréttingarmeðferðar á þessar breytingar. Ritgerðin er byggð á rannsóknargögnum sem safnað hefur verið við Tannlæknadeild HÍ að frumkvæði dr. Þórðar Eydals Magnússonar og vísindagreinum höfundar sem birtust 2007-2010. Við rannsóknina var notuð heildstæð viðurkennd aðferð þar sem skilgreind eru og skráð öll hugsanleg frávik í biti og tannstöðu og frávik í fjölda, formi og stöðu tanna.
Niðurstöðurnar sýna að tíðni tannskekkju hjá miðaldra Íslendingum er heldur lægri en í þeim erlendu rannsóknum sem helst er hægt að nota til samanburðar og kann skýringin að felast í því að erfðamengi Íslendinga sé einsleitara en annarra vegna sameiginlegs uppruna þjóðarinnar.
Í öðrum hluta ritgerðarinnar eru niðurstöður um bitþróun án tanntaps og án tannréttinga frá unglingsárum til fullorðinsaldurs. Þegar skoðaðir eru einstakir skekkjuþættir á unglingsárum, meðal annars yfirbit, djúpt bit, distalbit og gleiðstaða, kemur í ljós að í 50-80% tilvika hafa þeir lagast sjálfkrafa þegar kemur að seinni skoðuninni. Hjá öðrum einstaklingum þróast bitþættir aftur á móti til verri vegar þannig að breytingarnar á heildartíðni eru minni. Distalbit og djúpt bit hafa þó tilhneigingu til að lagast og heildarþróunin er marktækt jákvæð varðandi yfirbit og gleiðstöðu í efri tannboga. Tíðni mesíalbits og þrengsla í neðri tannboga eykst hins vegar marktækt á þessu 25 ára tímabili.
Varðandi tannréttingar er sýnt fram á að leiðrétting á yfirbiti og distalbiti sem gerð er á unglingsárum er varanleg. Einnig sést að tannréttingar með úrdrætti tanna hafa jákvæð áhrif til langs tíma á rými í efri tannboganum, en tannréttingar án úrdráttar hafa fylgni við aukin þrengsli í neðri tannboganum. Áhrif tannréttinga á nokkra mikilvægustu skekkjuþættina eru því varanleg og langtímaþróun bits marktækt hagstæð hvað þá varðar, miðað við breytingar sem verða hjá samanburðarhópi án meðferðar.
Rannsóknin sýnir að flestir skekkju- og rýmisþættir þróast með svipuðum hætti hvort sem tannréttingar koma við sögu eða ekki. Þá heildarmynd ætti að skoða í því ljósi að tannréttingar eru áhrifaríkar á tilteknu afmörkuðu tímabili en aldursbreytingar á kjálkabeinum og mjúkvefjum og aðrir líffræðilegir áhrifaþættir geta vegið þungt þegar til lengri tíma er litið.
Ritgerðin var unnin við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.
Auk leiðbeinanda og umsjónarkennara voru í doktorsnefndinni dr. Berglind Jóhannsdóttir, dr. Sigurður Rúnar Sæmundsson og dr. Stefán Hrafn Jónsson.
Um doktorsefnið
Teitur Jónsson er fæddur árið 1947 á Akureyri. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1966 og lauk cand. odont. prófi frá Tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 1972. Hann lauk sérnámi í tannréttingum frá Háskólanum í Ósló árið 1975 og fékk sérfræðiviðurkenningu í greininni árið 1980. Teitur starfaði við tannréttingar á eigin stofu á Akureyri frá 1976 til 2009. Hann varð lektor í tannréttingum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 2000 og fékk síðar framgang í stöðu dósents. Frá árinu 2010 hefur hann verið forseti Tannlæknadeildar. Eiginkona Teits er Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur.