
Á öðru rannsóknarkvöldi FÍF að vori mun Árni Heimir Ingólfsson flytja fyrirlesturinn: „Lögin í kvæðabók sr. Ólafs Jónssonar á Söndum.“
Séra Ólafur Jónsson á Söndum í Dýrafirði (um 1560-1627) var eitt mesta skáld sinnar tíðar og kvæðabók hans er varðveitt í allmörgum uppskriftum. Við tæplega 50 kvæði hans eru einnig varðveitt lög sem lítið hafa verið rannsökuð fram til þessa. Í erindinu mun Árni Heimir rekja sögu nokkurra laga úr kvæðabókinni auk þess sem hann fjallar um tengsl tónlistar og texta í ólíkum uppskriftum kvæðabókarinnar.
Árni Heimir nam píanóleik og tónlistarfræði við Oberlin-tónlistarháskólann og Harvard-háskóla, þaðan sem hann lauk meistaraprófi 1999 og doktorsprófi 2003 með ritgerð sinni um sögu og þróun íslenska tvísöngsins.
Allir velkomnir.
Ljósmynd: Karólína Thorarensen.