
Föstudaginn 14. mars nk. fer fram doktorsvörn við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Bjarni Elvar Pjetursson doktorsritgerð sína“Samanburður á lifunarhorfum og vandamálum sem komið geta upp hjá mismunandi tann- og tannplanta bornum tanngervum” (Comparison of survival and complication rates of tooth-supported fixed dental prostheses, implant-supported fixed dental prostheses and single crowns)
Andmælendur eru dr. Björn Klinge, prófessor við Tannholdsfræðideild Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi og dr. Klaus Gotfredsen prófessor í Tannlæknadeild í Kaupmannahöfn.
Leiðbeinandi var dr. Niklaus Peter Lang, prófessor emeritus og sérfræðingur í tannholdsfræði og umsjónarkennari var dr. Peter Holbrook, prófessor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.
Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigiðsvísindasviðs, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í aðalbyggingu og hefst klukkan 9:30.
Ágrip úr rannsókn
Aðalmarkmið þessa verkefnis var að þróa aðferðarfræði til að meta og greina langtímarannsóknir í munn- og tanngervalækningum. Að auki var ætlunin að bera saman og lýsa algengi líffræðilegra- og tæknilegra vandamála sem geta komið upp eftir að tanngervum er komið fyrir í munnholi sjúklings. Að lokum var metið hvort hægt sé að nota niðurstöðurnar til að setja fram gagnreyndar leiðbeiningar til ákvarðanatöku í munn- og tanngervalækningum.
Samantekt og greining á þeim rannsóknum sem uppfylltu skilyrðin um a.m.k. 5 ára eftirfylgni og klíníska skoðun gaf til kynna að 5 ára lifunarhorfur fyrir blönduð tann- og tannplantaborin tanngervi væru 95.5%, fyrir tannplantaborin tanngervi 95.2%, fyrir tannplantabornar stakar krónur 94.5%, fyrir venjuleg tannborin tanngervi 93.8%, fyrir tannborin tanngervi með hengilið 91.4% og fyrir resin-límdar brýr 87.7%. Aftur á móti, þegar 10 ára lifunarhorfur voru skoðaðar, lækkuðu horfurnar niður í 89.4% fyrir tannplantabornar stakar krónur, niður í 89.2% for venjuleg tannborin tanngervi, niður í 86.7% fyrir tannplantaborin tanngervi, niður í 80.3% fyrir tannborin tanngervi með hengilið, niður í 77.8% fyrir blönduð tann- og tannplantaborin tanngervi og niður í 65% fyrir resin-límd tanngervi.
Þrátt fyrir hátt lifunarhlutfall fyrir tannplantaborin tanngervi, höfðu 38.7% af sjúklingunum einhver líffræðileg eða tæknileg vandamál fyrstu fimm árin eftir að tanngervinu var skilað. Þetta hlutfall var 15.7% hjá venjulegum tannbornum tanngervum og 20.6% hjá tannbornum tanngervum með hengilið.
Byggt á niðurstöðum þessara greininga er ljóst, að þegar er verið að plana smíði tanngerva skal ávallt stefna að því að smíða venjuleg tannborin tanngervi eða tannplantaborin-tanngervi eða -stakar krónur.
Ritgerðin var unnin við Tannlæknadeild Háskóla Íslands og háskólann í Bern í Sviss í samstarfi við Háskólann í Hong Kong, National Dental Center í Singapúr háskólann í Zurich í Sviss, Harvardháskóla og síðar Tuftsháskóla í Boston.
Auk leiðbeinanda voru í doktorsnámsnefnd Dr. Marcel Zwahlen, prófessor í lýðheilsuvísindum við háskólann í Bern, Dr. Matthias Egger, prófessor í lýðheilsuvísindum og deildarforseti við háskólann í Bern, Dr. Hans P. Weber, prófessor í munn- og tanngervalækningum og deildarforseti við Harvardháskóla og síðar Tufts háskóla í Boston og Dr. Peter Holbrook prófessor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.
Um doktorsefnið
Bjarni Elvar Pjetursson er fæddur 1964 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík árið 1984, tannlæknisfræði við Háskóla Íslands árið 1990, sérnámi í tannholdslækningum árið 2003 og sérnámi í munn- og tanngervalækningum árið 2006 við háskólann í Bern, Sviss. Hann lauk einnig svissneskri doktorsgráðu (Dr. med. dent) árið 2004 og meistaragráðu (Master of Advanced Studies in Periodontology) árið 2008 við háskólann í Bern.
Að loknu framhaldsnámi var hann ráðinn lektor við háskólann í Bern. Árið 2007 árum var hann skipaður dósent og fagstjóri í munn- og tanngervalækningum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Hann fékk síðan framgang í stöðu prófessors árið 2009.
Foreldrar Bjarna Elvars eru Pétur Elvar Aðalsteinsson fv. framkvæmdarstjóri og Gréta G. Bjarnadóttir sjúkraliði. Eiginkona Bjarna Elvars er Kristín Heimisdóttir, tannréttingasérfræðingur og formaður Tannlæknafélags Íslands og eiga þau þrjú börn; Grétu Rut, Heimi og Tryggva.