
Um tveggja alda skeið, á tímabilinu 1400–1600, var Ísland í hringiðu átaka milli nokkurra stórra áhrifaafla á Norður-Atlantshafssvæðinu. Kalmarsambandið, Danakonungar, þýskar verslunarborgir, Hansaveldið og Englendingar áttu í erjum og jafnvel styrjöldum sín á milli vegna hagsmunaárekstra á Íslandi. Hver var staða Íslands á þessu tímabili? Var hér pólitískt tómarúm og verslunarstríð eða naut landið skjóls af hálfu stærri nágranna? Miðaldastofa og Alþjóðamálastofnun/Rannsóknasetur um smáríki efna til málþings um þessar spurningar þriðjudaginn 25. febrúar 2014 kl. 16.30 í stofu 101 í Lögbergi. Helgi Þorláksson, Baldur Þórhallsson og Sverrir Jakobsson flytja þar erindi.
Helgi Þorláksson: Englendingar, völd og verslun á 15. öld
Því hefur iðulega verið haldið fram að konungsvald hafi verið afar veikt á Íslandi á 15. öld, jafnvel svo veikt að myndast hafi valdatóm um skeið. Það á einmitt að hafa gerst þegar Englendingar færðu sig upp á skaftið sem kaupmenn og buðu landsmönnum vörur á kjörum sem þeir gátu ekki staðist. Enska öldin hóf innreið sína af fullum þunga á bilinu 1430–50. Hvað merkir valdatóm í þessu samhengi? Losnaði Íslandi þá að mestu úr tengslum við dansk-norska konungsvaldið? Réðu Englendingar því sem þeir vildu ráða á Íslandi og voru höfðingjar þeim auðsveipir og þakklátir fyrir vöruflutninga þeirra til landsins?
Helgi Þorláksson er prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann hefur meðal annars rannsakað verslunarsögu og fæðardeilur fyrir 1700.
— o —
Baldur Þórhallsson: Alþjóðasamskipti Íslendinga frá 1400 til siðaskipta. Efnahags- og menningarlegt skjól frá Englendingum og Þjóðverjum í pólitísku tómarúmi Danaveldis
Kenningar smáríkjafræða og alþjóðasamskipta gera ráð fyrir að smáríki njóti jafnan skjóls af hálfu stærri eininga í alþjóðakerfinu. Þær kenningar hafa fyrst og fremst miðast við ríkjakerfi nútímans, en hér er tekin upp sú nýbreytni að beita þeim á tímabilið frá 1400 til siðskipta og spyrja hvort Ísland hafi notið skjóls af hálfu nágranna sinna á því tímabili? Helstu niðurstöður eru þær að Ísland hafi notið efnahagslegs og félagslegs skjóls af hálfu Englendinga og Þjóðverja á tímabilinu en að pólitískt skjól hafi verið lítið í reynd, enda Danakonungur ófær um að beita sér að verulegu leyti á Íslandi fyrr en undir siðaskipti.
Baldur Þórhallsson er prófessor í stjórnmálafræði og Jean Monnet Chair í Evrópufræðum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans eru á sviði Evrópufræða og smáríkjafræða og lúta meðal annars að mikilvægi alþjóðasamskipta í sögu Íslands.
— o —
Sverrir Jakobsson: Ríkisvald á Íslandi á 15.öld: Stjórnleysi eða stefnufesta?
Nokkrar breytingar urðu á skipulagi og ráðstöfun sýslumannsembætta í Breiðafirði frá og með miðri 15. öld og má tengja þær við stefnu Björns Þorleifssonar sem hirðstjóra og æðsta umboðsmanns konungs á Íslandi. Í þessu erindi er ætlunin að greina stefnu Björns í samhengi við stöðu konungsvalds á Íslandi og rótgrónar hugmyndir um að fyrri hluti 15. aldar hafi einkennst af stjórnleysi eða „alveldi Englendinga“.
Sverrir Jakobsson er lektor í miðaldasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað heimsmynd og íslenskt þjóðerni, friðarviðleitni kirkjunnar og valdamiðstöðvar, m.a. í Breiðafirði.
Miðaldastofa og Alþjóðamálastofnun/Rannsóknasetur um smáríki