
Ásmundur G. Vilhjálmsson heldur erindið „Afmörkun á skattlagningarvaldi Íslands þegar menn eiga í hlut“ á málstofu Viðskiptafræðideildar.
Allir menn sem heimilisfastir eru í landi eru skyldir til að greiða skatt af heildartekjum sínum óháð tekjulind. Afmörkun þessara manna er gríðarlega þýðingarmikil fyrir ríki þar sem velferð ríkisins fer að nokkru leyti eftir fjölda skattskyldra manna.
Í erindinu verður fjallað um það hvernig þjóðir afmarka skattlagningarvald sitt þegar einstaklingar eiga í hlut. Hvenær skattskyldan stofnast við flutning til landsins og hvenær hún fellur niður eftir flutning af landi brott. Er nóg að fella aðeins niður lögheimilið til að sleppa við skatt eða verður einstaklingurinn að flytja varanlega úr landi?
Erindinu lýkur á spurningunni um hvort einstaklingur geti verið heimilisfastur samtímis í tveimur ríkjum. Ef ekki, til hvaða úrræða er þá unnt grípa til að skera úr um hvoru landinu viðkomandi er tengdari.
Ásmundur G. Vilhjálmsson er aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.