
Lísabet Guðmundsdóttir flytur fyrirlestur sem hún nefnir Skálinn við Lækinn. Fyrirlesturinn verður haldinn í Þjóðminjasafni Íslands miðvikudaginn 26. apríl og hefst kl. 12:00.
Sumarið 2015 hófst fornleifarannsókn á lóð Lækjargötu 10-12 vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Rannsókn leiddi í ljós skálabyggingu frá 10. öld ásamt öðrum samtíða mannvirkjum. Staðsetning skálans í Lækjargötu hefur sýnt fram á að byggð í Reykjavík var víðfeðmari en áður var talið og byggðarmynstur frábrugðið því sem þekkist annarsstaðar á landinu. Í þessu erindi verður fjallað um niðurstöður rannsóknarinnar ásamt því að setja þær í samhengi við fyrri fornleifarannsókn Kvosinni.
Erindið er flutt í fyrirlestraröðinni Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði sem Félag fornleifafræðinga, námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnið standa að.