
Þriðjudaginn 28. febrúar kl. 12 flytur Guðbjört Guðjónsdóttir mannfræðingur erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins.
Í fyrirlestrinum fjallar Guðbjört um flutninga Íslendinga til Noregs eftir hrun. Hún ræðir annars vegar um ástæður þess að fólk ákvað að flytja og hins vegar hvaða augum fólk lítur þessa flutninga og stöðu sína í Noregi. Erindið byggir að mestu á viðtölum við Íslendinga sem voru tekin í Noregi árin 2012 og 2013.
Guðbjört Guðjónsdóttir er með meistaragráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og leggur nú stund á doktorsnám við sama skóla. Í doktorsrannsókn sinni skoðar hún reynslu Íslendinga sem hafa flutt til Noregs eftir hrun.
Fyrirlesturinn er sá þriðji í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins á vormisseri og er skipulagður í tengslum við sýninguna Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi.
Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.