
Phennapha Saokham ver doktorsritgerð sína í lyfjafræði sem ber heitið: γ-Cyclodextrin örkorn. Self-assembled γ-cyclodextrin aggregates.
Andmælendur eru dr. René Holm, rannsóknarstjóri hjá þróunardeild Johnson & Johnson í Belgíu, og dr. Eva Fenyvesi, aðstoðarrannsóknarstjóri hjá CycloLab Research & Development Laboratory Ltd. í Ungverjalandi.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild skólans, dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild, Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor við sömu deild, og Jittima Chatchawalsaisin frá Chulalongkorn University í Bangkok.
Dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og deildarforseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Ágrip af rannsókn
Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar með vatnssækið ytra yfirborð og fitusækið op í miðjunni. Mörg fitusækin lyf mynda fléttur með sýklódextrínum með því að setjast í miðjuopið. Í fléttum lyfja og sýklódextrína er lyfjasameindin sögð vera gestasameind en sýklódextrínsameindin gestgjafasameind. Fléttur lyfja og sýklódextrína leiða oft til breytinga á eðlisefnafræðilegum eiginleikum lyfjanna svo sem leysanleika þeirra í vatni og hæfni þeirra til að fara í gegnum lífrænar himnur. Í lyfjaiðnaði eru sýklódextrín notuð til að auka flutning lyfja í gegnum lífrænar himnur (þ.e. auka aðgengi lyfjanna inn í líkama manna og dýra) og til að mynda vatnslausnir torleysanlegra lyfja svo sem í stungulyfjum og augndropum. Sýnt hefur verið fram á að í vatnslausnum mynda sýklódextrín agnir sem geta valdið erfiðleikum við lyfjaþróun en agnirnar bjóða jafnframt upp á ýmis tækifæri til nýsköpunar í lyfjafræði. Markmið doktorsverkefnisins var að rannsaka myndun sýklódextrín nanó- og míkróagna í vatnslausnum. Verkefnið skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta voru þróaðar vökvaskilju (HPLC-CAD) aðferðir til að greina bæði sýklódextrín og gestasameindir (t.d. lyf og rotvarnarefni) í vatnslausnum. Í öðrum hluta var þróuð himnuaðferð til ákvörðunar á myndun agna þar sem notaðar eru himnur sem hleypa í gegnum sig einstökum sameindum en ekki nanó- og míkróögnum. Í þriðja og síðasta hluta verkefnisins var rannsakað hvernig gestasameindir örva myndun nanó- og míkróagna. Rannsóknirnar sýna að myndun agna (þ.e. critical aggregation concentration eða cac) hefst við 12,26 mM fyrir α-sýklódextrín, 6,05 mM fyrir β-sýklódextrín og 7,19 mM fyrir γ-sýklódextrín. Þótt sýklódextrín auki leysanleika torleysanlegra efnasambanda leiðir fléttumyndunin oft til aukningar á agnamyndun, bæði á myndun nanóagna sem og á myndun lítilla míkróagna.
Um doktorsefnið
Phennapha Saokham lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Chiang Mai University í Taílandi árið 2005 og meistaraprófi í lyfjafræði frá Chulalongkorn University Taílandi árið 2010. Að loknu námi starfaði hún hjá Silom Medical Co. Ltd í Bangkok, þar til hún hóf doktorsnám í lyfjafræði við Lyfjafræðideild HÍ árið 2013.