
Sunna Pam Furstenau frá Fargo í Norður-Dakóta heldur hádegiserindi í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 7. janúar 2014 á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga í samvinnu við Háskóla Íslands. Erindið hefst kl. 12 og fjallar um íslensku arfleifðina í Norður-Ameríku. Hvers virði er hún fyrir yngri kynslóðir Íslendinga og Vestur-Íslendinga og hvernig verður henni viðhaldið? Erindið verður flutt á ensku og að því loknu gefst tækifæri til fyrirspurna og umræðna.
Sunna Pam Furstenau er fædd og uppalin í Pembina-héraði sem liggur í norðausturhorni Norður-Dakóta. Föðurætt hennar er íslensk og flutti fólkið hennar vestur um haf á árunum 1882-1895. Hún hefur undanfarin ár komið árlega til Íslands og flutt víða um land erindi í máli og myndum um afkomendur íslensku landnemanna í Norður-Ameríku og hvernig þeim hefur tekist að varðveita íslenska menningararfinn. Meðhöndlun hennar á umræðuefninu og hvernig hún fléttar saman mál og myndir hrífur áheyrandann. Á Þjóðræknisþingi í Reykjavík í ágúst sl. flutti hún erindi um þá lífsfyllingu sem áhugi hennar á íslenskum rótum sínum hefur fært henni. Erindið kallaði hún „Taking Chances“.
Um alllangt skeið hefur Sunna Pam Furstenau unnið að ættfræðirannsóknum. Nýlega keypti hún hinn yfirgripsmikla ættfræðigrunn Hálfdánar Helgasonar og stofnaði utan um hann sjálfseignastofnunina Icelandic Roots. Sunna og Hálfdán munu á komandi árum vinna að áframhaldandi þróun gagnagrunnsins. Nánari upplýsingar um Sunnu Pam Furstenau er að finna á vefnum www.icelandicroots.com