
Ragný Þóra Guðjohnsen ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands: „Hugmyndir ungs fólks um hvað það merki að vera góður borgari: Þáttur samkenndar, sjálfboðaliðastarfs og uppeldishátta foreldra“. á ensku „Young people’s ideas of what it means to be a good citizen: The role of empathy, volunteering and parental styles.“
Andmælendur eru dr. Daniel Hart, prófessor við Rutgers háskóla í Bandaríkjunum og dr. Wiel Veugelers, prófessor við University for Humanistic Studies in Utrecht
Leiðbeinandi var dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Helen Haste, prófessor við Harvard háskóla í Bandaríkjunum og dr. Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands
Dr. Ólafur Páll Jónsson, prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar við Menntavísindasvið, stjórnar athöfninni.
Um verkefnið
Í ljósi stefnumótunar þjóða þar sem lögð er áhersla á að styrkja borgaravitund ungs fólks og rannsókna sem gefa til kynna að borgaralegt þátttökumynstur ungs fólks sé að breytast – er mikilvægt að skoða hvaða þættir tengjast viðhorfum ungs fólks til þess að vera góður borgari. Meginmarkmið doktorsrannsóknarinnar er að leggja af mörkum til slíkra rannsókna. Nánar tiltekið er markmiðið annars vegar að varpa ljósi á skilning ungmenna á hvað það feli í sér að vera góður borgari. Hins vegar að kanna hvernig uppeldisaðferðir foreldra, samkennd ungmenna og reynsla af sjálfboðaliðastarfi tengist viðhorfum þeirra til þess hvað merkir að vera góður borgari.
Þátttakendur rannsóknarinnar voru 1042 (14 og 18 ára) frá þremur byggðarlögum. Blandaðri aðferðafræði var beitt við gagnasöfnun (spurningalistakönnun og djúpviðtöl) og úrvinnslu gagna. Rannsóknin er hluti af rannsóknarverkefninu: “Borgaraleg þátttaka ungs fólks í lýðræðislegu samfélagi” (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2011). Meginniðurstöður rannsóknarinnar benda til þess: Í fyrsta lagi að ungt fólk leggi meiri áherslu á þátttöku í félagslegum hreyfingum en minni á umræður um pólitísk málefni eða skráningu í pólitíska flokka. Unga fólkið taldi þó það að kjósa vera mikilvægan þátt í því að vera góður borgari. Í öðru lagi, að leiðandi uppeldishættir sem felast í stuðningi og eftirliti foreldra hafi mikilvægu hlutverki að gegna bæði við að efla samkennd ungs fólks og jafnframt jákvæð viðhorf þess til virkrar borgaralegrar þátttöku. Í þriðja lagi, að því ríkari samkennd sem unga fólkið hafi, þeim mun líklegra sé það til að hafa jákvæð viðhorf til mikilvægis borgaralegrar þátttöku. Í fjórða lagi, að þau ungmenni sem reynslu hafi af sjálfboðaliðastarfi séu líklegri til að hafa jákvæð viðhorf til virkrar borgaralegrar þátttöku. Í viðtölunum kom fram að ungmennin töldu virka borgaralega þátttöku mikilvægan þátt þess að vera góður borgari og kölluðu þau eftir fleiri tækifærum fyrir ungu kynslóðina til þess að taka þátt og tjá rödd sína. Þau nefndu jafnframt margvísleg borgaraleg gildi (t.d. traust, umhyggja fyrir velferð) og tengdu borgaraleg markmið hins góða borgara bæði við eigin sem og samfélagslegan hag.
Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að vera hvatning til yfirvalda, stefnumótunaraðila, félagslegra hreyfinga, skólastofnana og foreldra til að hlúa að borgaralegum viðhorfum barna sinna og ungmenna með því að nota leiðandi aðferðir, styrkja samkennd þeirra og skapa þeim tækifæri til borgaralegrar þátttöku frá unga aldri. Þannig megi undirbúa þau fyrir hlutverk sitt sem borgara í þjóðfélaginu og leggja mikilvægan grunn að virkri borgaralegri þátttöku þeirra í lýðræðislegu samfélagi.
Um doktorsefnið
Ragný Þóra Guðjohnsen er fædd árið 1966. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1986 og embættisprófi í lögfræði frá lagadeild HÍ árið 1992. Árið 1998-1999 stundaði hún nám í lýðheilsu við School of Public Health við University of North Carolina, Chapel Hill. Árið 2009 lauk Ragný meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði frá Félags- og mannvísindadeild HÍ. Hún hóf doktorsnám við Menntavísindasvið (MVS) HÍ árið 2009 og var gestanemandi við The Catholic University of America í Washington árið 2012 sem hluta af doktorsnámi sínu. Ragný hefur starfað sem aðjúnkt í Uppeldis- og menntunarfræðideild við MVS frá janúar 2016 og þar á undan sem stundakennari frá 2009 við sömu deild. Hún hefur starfað við rannsóknarstofu Sigrúnar Aðalbjarnardóttur prófessors: Lífshættir barna og ungmenna frá 2007. Ragný starfaði sem lögfræðingur hjá Sýslumanninum í Reykjavík 1992-1995, bjó í Bandaríkjunum frá 1996-2001, starfaði sem framkvæmdastjóri í eigin atvinnurekstri frá 2001-2007, sem verkefnastjóri við Háskóla Íslands 2003-2005 og sat í Bæjarstjórn Garðabæjar og í fjölmörgum nefndum á vegum bæjarins árið 2002-2013. Rannsóknir Ragnýjar og starf á vettvangi snúa að velferð ungs fólks, forvörnum og virkri borgaralegri þátttöku þeirra í samfélaginu. Ragný er virkur þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknaneti Association of Moral Education (AME) og Children’s Identity and Citizenship in Europe (CiCea). Ragný er gift Jóhannesi Kára Kristinssyni og eiga þau þrjú börn, Jón Magnús, Árnýju og Margréti