
Fimmtudaginn 8. september ver M. M. Mahbub Alam doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Uppruni og stofngerð megin rækjutegunda í Bangladesh (Origin and population structure of major prawn and shrimp species in Bangladesh).
Andmælendur eru dr. Kristinn P. Magnússon, prófessor við Háskólann á Akureyri, og dr. Endre Willassen, prófessor við Háskólann í Bergen, Noregi.
Leiðbeinandi er dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.Einnig sitja í doktorsnefnd dr. Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla SÞ á Íslandi, dr. Arnar Pálsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og dr. Kristen M. Westfalls, sérfræðingur við Pacific Biological Station, Fisheries and Oceans, Kanada.
Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Indlandshaf og Kyrrahaf búa yfir einstöku vistkerfi og mesta líffræðlilega fjölbreytileika jarðar. Uppruni og stofngerð sex rækjutegunda sem eru mikilvægar jafnt efnahagslega sem og fyrir vistkerfi Bangladesh er viðfangsefni þessarar ritgerðar. Tegundirnar eru fimm þursarækjur: Fenneropenaeus indicus, Penaeus monodon, Penaeus semisulcatus, Metapenaeus monoceros, Parapenaeopsis sculptilis, og strandrækjan Macrobrachium rosenbergii sem lifir að mestu í ferskvatni. Tegundirnar voru rannsakaðar með því að greina erfðabreytileika þeirra á misítarlegan hátt, með raðgreiningu hvatbera DNA, greiningu örtungla, arfgerðagreiningu á stökum breytilegum sætum víðsvegar úr erfðamengjum (e. SNP) og með raðgreiningum á stuttum röðum víðsvegar úr erfðamengi einnar tegundarinnar (e. ddRadSeq). Niðurstöður greininga á erfðabreytileikanum gáfu einnig tækifæri til að rannsaka flokkunarfræði tegundanna, breytileika þeirra og sögulegar stofnstærðarbreytingar. Flokkunartré Fenneropenaeus og Metapenaeusættkvíslanna sýndu fjölstofna tengsl innan þeirra. Duldar tegundir greindust innan F. indicus,og í P. monodon með athugun á hvatberaerfðaefni tegundanna. Greining á upprunalandafræði tegundanna sýndi samsvörun milli erfðafræðilegrar aðgreiningar og þekktra líflandfræðilegra svæða, milli Bengalflóa og austurstrandar Afríku, og sitthvorum megin við Malakkaskaga. Aðgreining milli stofna greindist í erfðamengi P. monodon meðfram strönd Bangladesh frá vestri til suðausturs og einnig meðal stofna M. rosenbergi, frá vatnasvæðum fjögurra áa innan Bangladesh. Erfðabreytileiki rækjanna var mikill, þrátt fyrir grunn ættartré sem bendir til stórra stofna sem hafa vaxið ört á síðustu 466 þúsund árum. Stofnvöxtur F. indicus hefur byrjað síðar í Bangladesh (~78 000 ár) en í Sri Lanka (~120 000 ár). Hinar landfræðilega aðskildu hvatberagerðir sem greindust í þessari rannsókn flokkast sem þróunarfræðilega marktækar einingar sem taka ætti tillit til við stjórnun á þessum mikilvægu tegundum, bæði í eldi og í veiðistjórnun, til að vernda þennan mikla breytileika innan tegundanna. Stofnarnir sem greindust innan Bangladesh P. monodon og M. rosenbergiiætti að flokka sem sérstaka veiðistofna. Niðurstöður úr þessari rannsókn má einnig nýta til að rekja uppruna rækja af óljósum uppruna, m.a. frá ólöglegum veiðum.
Um doktorsefnið
M. M. Mahbub Alam er kvæntur og tveggja barna faðir. Hann lauk BSc-gráðu í fiskifræði (e. Fisheries honors) frá Bangladesh Agricultural University 1995 og MS í fiskveiðistjórnun (e. Fisheries management) 2000 við sama skóla og stundaði nám við Sjávarútvegsskóla SÞ á Íslandi 2010-2011. Hann gegnir nú stöðu lektors við Sylhet Agricultural University í Bangladesh.