Hvenær hefst þessi viðburður:
14. júní 2016 - 12:00 til 13:15
Staðsetning viðburðar:
Nánari staðsetning:
Stofa 101

Ný lög um útlendinga sem Alþingi samþykkti 2. júní síðastliðinn eru viðfangsefni næsta hádegisfundar í fundaröð Háskóla Íslands sem ber yfirskriftina Fræði og fjölmenning.
Markmiðið með endurskoðun útlendingalaga var að tryggja að mannúð, jöfnuður og skilvirkni verði höfð að leiðarljósi við meðferð stjórnvalda á málefnum útlendinga og eru lögin afrakstur tveggja ára þverpólitískrar samvinnu. Á fundinum verður sjónum beint að áhrifum nýju laganna en ákvæði um alþjóðlega vernd voru t.a.m. endurskoðuð og mið tekið af þeirri þróun sem hefur átt sér stað á alþjóðavísu. Hvað felst í hinum nýju lögum og hvaða áhrif koma þau til með að hafa fyrir þá sem sækja um vernd hér á landi?
Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 14. júní nk. kl. 12 til 13.15 í stofu 101 í Odda og er öllum opinn.
Dagskrá
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, opnar fundinn.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, gerir grein fyrir nýjum lögum um útlendinga og markmiðum þeirra.
Arndís A. K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, fjallar um sýn Rauða krossins á ný lög um útlendinga.
Claudie Ashonie Wilson, lögfræðingur hjá lögmannsstofunni Rétti, mun fjalla um áhrif laganna á réttarstöðu flóttafólks á Íslandi.
Að fundi loknum verður boðið upp á hressingu.
Nánari upplýsingar um fyrirlestraröðina á finna á heimasíðu hennar.