
Erla Björg Aðalsteinsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði. Heiti verkefnisins er: Sjálfbær skipulagsgerð á Íslandi Notkunarmöguleikar DGNB umhverfisvottunarkerfisins.
Ágrip
Markmiðið með verkefninu var skoða alþjóðlega umhverfisvottunarstaðalinn DGNB fyrir skipulagsgerðir, hvernig hann er notaður til að meta sjálfbærar lausnir í þéttbýli, hvort hann henti fyrir ísland og um leið skoða rökin fyrir að nýta slík vottunarkerfi fyrir skipulagsgerð hér á landi. Aðferðin var að skoða hvernig DGNB kerfið er sett upp og það síðan mátað við íslenskt deiliskipulag, Vogabyggð, sem nú er í vinnslu. Rannsóknin var í tveimur hlutum, annars vegar var athugað hvort deiliskipulag Vogabyggðar taki á öllum þeim þáttum sem DGNB gerir kröfur um og hinsvegar voru fimm vísar valdir og reiknaðir út með fyrirliggjandi gögnum frá deiliskipulagi Vogabyggðar. Helstu niðurstöður sýna að notkunarmöguleikar DGNB eru miklir hér á landi en samræma þyrfti kerfið og íslenska skipulagsgerð. Deiliskipulag Vogabyggðar tekur á flestum þeim þáttum sem DGNB gerir kröfur um en þörf er á að skoða nánar hvernig vísar eru reiknaðir út og hvaða gögn þurfi til að meta sjálfbærni skipulagsins hér á landi. Ljóst er að alþjóðlegur umhverfisvottunarstaðall líkt og DGNB myndi ýta undir sjálfbærni í þéttbýli þar sem þörf er á skýrari stefnu og eftirfylgni hvað það varðar og getur DGNB kerfið hæglega orðið hluti af slíkri stefnu.
Leiðbeinendur Þorbjörg Kjartansdóttir, Harpa Birgisdóttir og Brynhildur Davíðsdóttir
Prófdómari: Helga J. Bjarnadóttir