
Mánudaginn 9. maí ver Javed Hussain doktorsritgerð sína í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Heiti ritgerðarinnar er: Reikningar á rafafoxun koltvísýrings til að mynda kolvetni og alkóhól (Calculations of carbon dioxide electroreduction to hydrocarbons and alcohols)
Andmælendur eru dr. Marc T.M. Koper, prófessor við Leiden háskóla, Hollandi, og dr. Andrew A. Peterson, prófessor við Brown háskóla, Bandaríkjunum.
Leiðbeinendur voru dr. Hannes Jónsson, prófessor og dr. Egill Skúlason, dósent, báðir við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Einnig sat dr. Sveinn Ólafsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskólans í doktorsnefndinni.
Dr. Hafliði Pétur Gíslason, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Tölvureikningar á gangi og hraða rafefnafræðilegrar afoxunar CO2 til að mynda metan, eten, metanól, etanól og önnur efni hafa verið gerðir til að rannsaka hvaða eiginleika góður efnahvati þarf að hafa til að ferlið sé nógu hratt og til að tiltekið efni myndist. Niðurstöður verkefnisins sýna af hverju kopar er besti efnahvatinn af öllum þeim málmum sem prófaðir hafa verið hingað til á rannsóknastofum og gefur vísbendingar um það hvernig hægt er að leita að betri hvata með tölvureikningum.
Um doktorsefnið
Javed Hussain er fæddur í Pakistan 6. mars 1983. Hann lauk grunnnámi í náttúruvísindum árið 2004 og meistaragráðu í efnafræði árið 2006 við Peshawar-háskóla í Pakistan. Þá lauk hann grunnnámi í kennslufræði árið 2007 frá sama háskóla. Eftir það fluttist hann til Svíþjóðar þar sem hann lauk meistaragráðu í efnafræði við Linneus-háskóla í Kalmar árið 2012. Sama ár hóf hann doktorsnám við Háskóla Íslands. Javed trúlofaðist nýlega Hina Saeed, sem býr í Pakistan.