
Lilja Karlsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í ferðamálafræði. Heiti verkefnisins er: MICE ferðamennska: Virðisskapandi þættir í markaðsmiðun MICE vörunnar almennt og í Reykjavík.
Ágrip
Markmið þessarar rannsóknar er að draga fram þá virðisskapandi þætti sem mikilvægt er að hafa í huga við markaðsmiðun MICE vörunnar og eru ráðandi í ákvörðun MICE skipuleggjenda um val á áfangastöðum fyrir viðburði sem þeir taka þátt í að skipuleggja. Einnig er markmið að finna þá þætti sem eru ráðandi í að móta virði Reykjavíkur í MICE ferðamennsku.
Notaðar eru fræðilegar upplýsingar og upplýsingar úr rannsóknum CBI og Cvent. Auk þess var framkvæmd megindleg rannsókn sem lögð var fyrir erlenda MICE skipuleggjendur úr tengslaneti Meet in Reykjavík (MIR).
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að það er að ýmsu að huga við markaðsmiðun áfangastaða í MICE ferðamennsku. Flestir þættir sem lúta að aðdráttarafli áfangastaða, bæði svokallaðir erfðir og áunnir þættir sem Michael E. Porter talar um að móti samkeppnishæfni, auka virði í MICE ferðamennsku. Hinir áunnu þættir, eins og gisting og viðburðaraðstaða, virðast þó skapa meira virði en hinir erfðu þættir. Eins og staðan er í dag eru þessir áunnu þættir á áfangastöðum flestir mjög samkeppnishæfir og til að auka virði er því mikilvægt að draga fram einhverja sérstöðu þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að náttúran og einstakleiki Reykjavíkurborgar þ.e. hinir erfðu þættir áfangastaða frekar en hinir áunnu skapi Reykjavík ákveðna sérstöðu og þar með samkeppnisforskot í MICE ferðamennsku.
Leiðbeinendur: Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Magnús Haukur Ásgeirsson, aðjunkt í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.
Prófdómari: Rósbjörg Jónsdóttir, Framkvæmdastjóri Gekon.