Hvenær hefst þessi viðburður:
20. apríl 2016 - 12:00 til 13:00
Staðsetning viðburðar:
Nánari staðsetning:
HT-101

Flóttafólk verður í brennidepli í erindi sem Páll Stefánsson ljósmyndari heldur í Háskóla Íslands miðvikudaginn 20. apríl nk. kl. 12-13 í stofu 101 á Háskólatorgi. Erindið er hluti af fundaröð háskólans sem ber yfirskriftina Fræði og fjölmenning.
Aldrei áður hefur jafnmikill fjöldi fólks flúið heimili sín en talið er að um 55 milljónir manna séu nú á flótta um heim allan. Ríflega milljón þeirra hefur leitað til Evrópu á síðastliðnu ári. Frá því að átök brutust út í Sýrlandi hafa um þrjár milljónir manna flúið til Tyrklands, ein og hálf milljón til Líbanon og um átta milljónir Sýrlendinga eru nú á flótta í eigin landi. Þá eru ótaldir þeir Írakar, Afganar, Erítreumenn, Súdanar og Sómalar sem flúið hafa hörmungar heima fyrir.
Páll Stefánsson ljósmyndari hefur á undanförnum mánuðum ferðast víða og kynnst aðstæðum og raunum þeirra sem flúið hafa átök í heimalandi sínu. Í erindinu mun Páll deila í máli og myndum reynslu sinni frá ferðum sínum til Líbanons, Kos, Lesbos, Tyrklands, Svíþjóðar, Þýskalands og nú nýverið til Calais í Frakklandi.
Fundarstjórn verður í höndum Páls Biering, dósents við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Fundurinn fer fram á íslensku og er öllum opinn.