
Miðvikudaginn 17. febrúar heldur Gísli Magnússon, lektor við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, fyrirlestur á vegum Trúarbragðafræðistofu. Fyrirlesturinn, sem ber yfirskriftina „Dulspeki í bókmenntum og listum um aldamótin 1900“, verður fluttur í stofu 108 í Stapa og stendur frá kl. 13:20 til 14:40.
Dulspeki er vanmetinn menningarlegur þáttur í bókmenntum og listum um aldamótin 1900. Í fyrirlestrinum verður fjallað um mikilvægi dulspekinnar sem menningarlegs kóða á tímabilinu, m.a. í verkum Vasilijs Kandinskij, Rainers Marias Rilke, Guys de Maupassant og Gustavs Meyrink. Tilraunir Kandinskijs og Rilkes með skynjunarrými sýna fram á að fyrirbærafræði dulspekinnar ýtti undir þróun módernismans í upphafi 20. aldar.
Gísli stundaði doktorsnám við RWTH í Aachen en varði doktorsritgerð (doktordisputats) sína um Rainer Maria Rilke við Roskilde Universitet árið 2008. Hann lauk meistaraprófi í þýsku og tónlist frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2000 og var nýdoktor við Árósaháskóla 2010-2012. Rannsóknasvið Gísla eru þýskar og danskar bókmenntir, þýsk-norræn menningartengsl um aldamótin 1900 og þverfagleg tengsl á milli bókmennta og andlegra strauma. Doktorsritgerð hans var gefin út hjá Königshausen & Neumann árið 2009 undir heitinu Dichtung als Erfahrungsmetaphysik. Esoterische und okkultistische Modernität bei Rainer Maria Rilke. Árið 2014 komu út tvær bækur eftir Gísla: Esotericism and Occultism in the Works of the Austrian Poet Rainer Maria Rilke og Influx. Der deutsch-skandinavische Kulturaustausch um 1900. Gísli hefur jafnframt gefið út fjölda bókmenntaþýðinga á dönsku.