
Karen Möller Sívertsen flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í ferðamálafræði.Heiti verkefnisins er Facebook logar af Norðurljósum: Markaðssetning norðurljósaferða ferðaþjónustufyrirtækja á Facebook.
Lýsing á verkefni:
Ritgerð þessi fjallar um niðurstöður rannsóknar á markaðssetningu norðurljósaferða íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á Facebook. Markmið rannsóknarinnar var að greina birtingarmyndir norðurljósa í markaðssetningu ferðaþjónustufyrirtækja á miðlinum og lýsa því hvaða hlutverk norðurljós leika í ímyndarsköpun landsins sem áfangastaðar ferðamanna. Rannsóknarniðurstöður byggja á greiningu hálfstaðlaðra viðtala við níu einstaklinga sem starfa hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem bjóða upp á norðurljósaferðir. Viðtölin voru tekin á tímabilinu frá september 2014 til janúar 2015. Auk þess byggja rannsóknarniðurstöður á innihalds- og orðræðugreiningu 1.693 norðurljósamynda sem safnað var af Facebook-síðum viðkomandi fyrirtækja í júní 2014 og mars 2015. Niðurstöður leiða í ljós að fyrirtæki birta myndir úr norðurljósaferðum á Facebook-síðum sínum sem ætlað er að leiða til samskipta við viðskiptavini og rafræns umtals. Myndirnar þykja gefa innsýn í norðurljósaferðir og er ætlað að draga upp jákvæða og traustvekjandi ímynd af ferðaþjónustufyrirtækjunum og skapa raunhæfar væntingar meðal viðskiptavina. Myndirnar sýna þó aðeins takmarkaða mynd margbreytilegs veruleika og skapa því tálmynd þar sem þær gera óstöðug norðurljós stöðug. Skiptir þá engu máli hvort búið er að vinna myndir eða ekki, en fjölbreyttar ástæður liggja að baki því hvort fyrirtæki birta unnar eða óunnar myndir á Facebook. Sú merking sem fyrirtæki leggja í myndir sínar er þó ekki endanleg þar sem viðskiptavinir taka einnig þátt í þeirri merkingarsköpun með ummælum sínum á Facebook. Fyrirtækin leggja mikla áherslu á myndefnið. Í meirihluta mynda er landslag í forgrunni en fólk er í minnihluta. Innihald myndanna er áþekkt en sjónarhorn þeirra eru ólík. Þær byggja upp ímynd af Íslandi sem norðlægum heilsársáfangastað og landi ægifagurra norðurljósa.
Leiðbeinendur verkefnisins voru dr. Katrín Anna Lund, dósent í land- og ferðamálafræði og Gunnar Þór Jóhannesson, dósent í land- og ferðamálafræði.
Prófdómari var dr. Edward H. Huijbens, prófessor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri og sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð ferðamála.