
Mánudaginn 8. febrúar n.k. heldur Valgerður H. Bjarnadóttir fyrirlestur í boði Guðfræðistofnunar í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 11:40.
Yfirskrift fyrirlestursins er: “Ég er hin virta og hin svívirta” – Svarta madonnan og meyjan.
Í fyrirlestrinum fjallar Valgerður um trúarfyrirbærið sem kallað hefur verið Svarta madonnan eða Svarta meyjan, kristnar helgimyndir þar sem madonnan/meyjan og barnið eru dökk á hörund, stundum svört. Valgerður fjallar lítillega um sögu þessara helgimynda og kenningar um merkingu þeirra og tengir þar við tvö forn ljóð, annars vegar Ljóðaljóðin og hins vegar gnostíska ljóðið Þrumanþar sem kvenrödd segir m.a.: „Því ég er hin fyrsta og hin síðasta. Ég er hin virta og hin svívirta. Ég er hóran og hin helga. Ég er eiginkonan og meyjan. Ég er móðirin og dóttirin.”
Valgerður H. Bjarnadóttir er með MA-gráðu í femínískri trúarheimspeki og hefur skrifað og haldið fyrirlestra og námskeið um gyðjur veraldarsögunnar og trúar- og menningarsögu kvenna. Hún starfar sjálfstætt undir yfirskriftinni Vanadís – rætur okkar, draumar og auður. Bók hennar, The Saga of Vanadís, Völva and Valkyrja, kom út á ensku í Þýskalandi árið 2009.
Fyrirlesturinn er öllum opinn.