Hvenær hefst þessi viðburður:
3. maí 2016 - 17:00
Nánari staðsetning:
Bílastæðinu við Vífilsstaði í Garðabæ

Snæbjörn Guðmundsson, doktorsnemi í jarðfræði og kennari í Háskólalest Háskóla Íslands og Háskóla unga fólksins, leiðir ferð um Búrfellsgjá í Heiðmörk að gígnum Búrfelli þriðjudaginn 3. maí kl. 17. Hist verður á einkabílum á bílastæðinu við Vífilsstaði í Garðabæ og þaðan ekið inn í Heiðmörk. Í göngunni útskýrir Snæbjörn þau náttúrufyrirbrigði sem fyrir augu ber en þetta svæði er stórkostlegur ævintýraheimur og sýnir vel hvernig Ísland varð til. Á leiðinni eru ýmsir hellar, sprungur og gjótur kannaðar, m.a. hin sögufræga Vatnsgjá.
Gangan er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.
Þátttaka ókeypis og allir velkomnir.