
Þriðjudaginn 24. nóvember ver Oddgeir Guðmundsson doktorsritgerð sína í iðnaðarverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Greining útfellinga í varmaskiptum með samanburði á líkönum (Detection of fouling in heat exchangers using model comparison).
Andmælendur eru dr. M. Reza Malayeri, prófessor í efnaverkfræði við University of Stuttgart, Þýskalandi, og dr. Ian Wilson, prófessor í efnaverkfræði við University of Cambridge, Bretlandi.
Leiðbeinendur voru dr. Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og dr. Halldór Pálsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Einnig sátu í doktorsnefnd dr. Sylvain Lalot, prófessor við University of Valenciennes í Frakklandi, og dr. Guðmundur R. Jónsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
Ágrip af rannsókn
Útfellingar í varmaskiptum valda oft vandamálum í nútíma iðnaði. Áhrif útfellinga eru minnkuð orkunýtni og aukinn útblástur óumhverfisvænna gastegunda. Í raun eru öll ferli sem snúast um varmaskipti viðkvæm fyrir útfellingum. Í sumum tilfellum er hægt að hreinsa útfellingar með beinum hætti, með efnanotkun eða með því að brenna þær í burtu, í öðrum tilfellum getur verið að ekki sé hægt að hreinsa varmaskipti og þarf þá að skipta honum út fyrir nýjan. Þó að hægt sé að hreinsa varmaskipta eru takmörk fyrir hversu oft það er hægt áður en þörf er á að skipta þeim út fyrir nýja. Jafnvel þó að snemmbúin greining á útfellingum hafi ekki endilega mikil áhrif á líftíma varmaskiptisins getur greiningin komið í veg fyrir að nýtni hans verði svo lág að það skaði ferlið sem hann er hluti af. En ef nýtnin er orðin of lág getur sú framleiðsla sem varmaskiptirinn er hluti af skaðast, með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni. Markmið þessa doktorsverkefnis er að þróa og nota aðferðir sem geta greint útfellingar út frá mælipunktum sem alla jafna er auðvelt að mæla í venjulegri notkun á varmaskiptum, án þess að trufla það ferli sem þeir eru hluti af. Niðurstöðurnar sýna greinilega að aðferðirnar sem þróaðar hafa verið í verkefninu geta greint útfellingar innan hefðbundinna hönnunarmarka varmaskipta.
Um doktorsefnið
Oddgeir Guðmundsson er fæddur 1981. Hann brautskráðist með BS-próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2006 og með meistarapróf í iðnaðarverkfræði frá sama skóla 2008. Frá árinu 2012 hefur Oddgeir unnið sem sérfræðingur hjá hita- og kæliveitusviði Danfoss í Danmörku.