Quantcast
Channel: Viðburðir við HÍ - Events at the University of Iceland
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

Sturlungaöld

$
0
0
Hvenær hefst þessi viðburður: 
15. október 2015 - 16:30 til 18:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
132
Sturlungaöld

Sverrir Jakobsson

Gissur, Hrafn og Brandur

Konungstaka Íslendinga 1262–1264

Þrír Íslendingar voru í lykilhlutverki þegar Íslendingar gengust undir vald Noregskonunga á árunum 1262–1264. Einn var Gissur Þorvaldsson sem fékk bændur í þeim landshlutum sem þegar höfðu gengist undir vald konungs, á Norðurlandi og í Árnesþingi, til þess að fallast á að greiða honum skatt. Það gerði Gissur þó ekki fyrr en honum var orðið það ljóst að konungur myndi styðja aðra höfðingja gegn honum ef hann efndi ekki það sem konungur taldi hann hafa heitið sér. Annar var Hrafn Oddsson sem gerðist konungsfulltrúi árið 1261 án mikils aðdraganda. Ekki einungis var stuðningur konungs við Hrafn til þess að þrýsta á Gissur heldur réð Hrafn úrslitum um það að bændur í Vestfirðingafjórðungi játuðust undir konung. Þriðji maðurinn var Brandur Jónsson biskup sem fékk frændur sína á Austfjörðum til að játast undir konungsvald árin 1263–1264. Í þessu erindi verður hlutur hvers og eins veginn og metinn.

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað heimsmynd og íslenskt þjóðerni, friðarviðleitni kirkjunnar og valdamiðstöðvar, m.a. í Breiðafirði.

—o—

Gunnar Karlsson

Átti Noregskonungur sök á Sturlungaöld?

Fram yfir miðja 20. öld héldu fræðimenn að afstaðan til Noregskonungs hefði verið meiri háttar ágreiningsefni meðal Íslendinga 13. aldar og vilji konungs til að auka Íslandi við ríki sitt hefði átt stóran þátt í ófriði Sturlungaaldar. Gegn þessu réðst Sigurðar Líndal árið 1964 í eftirminnilegri grein um utanríkisstefnu Íslendinga á 13. öld. Aðalatriði Sigurðar var að hugmyndin um fullveldi ríkja hefði verið lítt eða ekki kunn á þessum tíma og því ástæðulaust að ætla að Íslendingar hefðu litið á sjálfstæði þjóðarinnar sem keppikefli. Síðan hefur ríkt sterk tilhneiging meðal sagnfræðinga Vesturlanda til að gera sem minnst úr pólitískri þjóðernishyggju á fyrri öldum. Sú tilhneiging hefur náð vel til Íslands, en þetta mál hefur verið lítið rætt og ógert er að kanna skipulega hvaða vitnisburðir eru í heimildum um andúð Íslendinga á að gerast og vera þegnar Noregskonungs og hvað er réttast að lesa úr þeim.

Fyrirlesturinn verður ágripskennd aðför að þessu efni og niðurstaðan væntanlega sú að víst hafi Íslendingar verið tregir að gangast undir konungsvald; það tók Noregskonung meira en 40 ár að fá þá til að taka við sér sem þjóðhöfðingja. En af hverju stafaði tregða Íslendinga? Sjálfstæðisvilja þjóðarinnar? Nísku á skattgreiðslu til konungs? Vantrú á að konungsveldi væri betra stjórnarform en íslenska goða- og smáhöfðingjaveldið? Við þetta verður glímt í fyrirlestrinum og í framhaldi af því leitast við að svara því hvort ásælni konungs hafi átt þátt í að magna ófrið Sturlungaaldar — eða hefta hann og stöðva.

Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, er upphaflega íslenskufræðingur með Íslandssögu sem kjörsvið. Hann var lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands 1976–80 og prófessor í sömu grein til starfsloka 2009. Hann hefur skrifað margt um Íslandssögu, meðal annars íslenska miðaldasögu, og vinnur nú að bók um landnám Íslands.

Aðgangur ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir.

Miðaldastofa Háskóla Íslands
The University of Iceland Centre for Medieval Studies
miðaldastofa.hi.is

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012