
Miðvikudaginn 23. september mun Eeva-Sofia Säynäjoki flytja fyrirlestur um doktorsverkefni sitt í umhverfisfræði. Verkefnið ber heitið Vannýttir möguleikar í borgarskipulagi: Að ná meiri árangri í umhverfissjálfbærni (The Untapped Potential of Urban Planning: Achieving Greater Success in Environmental Sustainability).
Um er að ræða sameiginlega prófgráðu frá Háskóla Íslands og Aalto University og fór doktorsvörnin fram í Helsinki 4. september sl.
Andmælandi við doktorsvörnina var dr. Jyri Seppälä, prófessor við Finnish Environment Institute.
Leiðbeinandi Eevu í verkefninu var dr. Jukka Heinonen, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Seppo Junnila, prófessor við Department of Real Estate, Planning and Geoinformatics, Aalto University, Finnlandi, og dr. Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.
Ágrip af rannsókn
Bæði ástæður og lausnir hnattrænnar hnignunar vistkerfisins má finna á borgarsvæðum þar sem þéttleiki íbúa og neysla hafa myndað miðpunkta eftirspurnar alþjóðahagkerfisins. Nú þegar stjórnmálin leggja fram sífellt fleiri hugmyndir að skipulagi framtíðar, getur borgarskipulagsfræði nýst sem tæki til að umbreyta borgarsvæðum í sjálfbær samfélög. Tilgangur þessarar ritgerðar er að kanna hvernig borgarskipulagi er beitt til að efla sjálfbærni í umhverfismálum og til að varpa ljósi á hve vel núverandi stefnur og starfshættir nýtast við að draga úr umhverfisálagi þéttbýlis. Rannsóknin tekur til svæða þar sem þéttleiki byggðar er hlutfallslega lítill á alþjóðavísu þó um borgir sé að ræða.
Rannsóknin felur í sér fjölþætta aðferðafræði sem eru aðallega eigindlegar. Tveir rannsóknarhlutar byggjast á skoðun tilfella og dæma, þá er framkvæmd heimildarýni og einnig er gerð rannsókn með rýnihópi. Ritgerðin tengir saman niðurstöður fjögurra rannsóknargreina og færir rök fyrir því að möguleikar skipulagsfræði til að örva og greiða fyrir sjálfbærni í umhverfismálum séu vannýttir. Niðurstöðurnar sýna að þétting byggðar er helsta verkfærið sem nú er notað til að reyna að ná fram úrbótum á sviði umhverfismála í dreifðri byggð. Hins vegar, þegar þétting byggðar er notuð sem einföld almenn skipulagsstefna, næst væntur ávinningur ekki endilega. Umhverfisáhrif og afleiðingar af endurnýjun borgarsvæða með þéttingu geta reynst vinna gegn settum markmiðum skipulags- og ákvarðanatökuferlisins.
Enn varhugaverðara er að þau umhverfissjónarmið sem höfð eru til hliðsjónar við borgarskipulag virðast ekki taka tillit til tiltekinna marktækra en breytilegra umhverfisáhrifa byggðar. Fagfólki í skipulagsfræði hættir til að sjá ekki tengslin á milli byggðaforms og sjálfbærs lífsstíls eða neyslumynsturs nema að því er varðar húsakost og daglegar samgöngur. Þetta takmarkaða sjónarhorn á ætluð umhverfisáhrif borgarskipulags ber með sér hættu á því að aðgerðir auki neyslu þvert á áætlanir. Lagt er til að beitt sé víðtækara sjónarhorni á sjálfbærni í borgarumhverfi til að auka árangur af skipulagsaðgerðum sem ætlað er að draga úr umhverfisáhrifum.
Um doktorsefnið
Eeva hlaut Master of Science (Technology) gráðu í umhverfis- og orkutækni frá Tampere-tækniháskólanum í Finnlandi árið 2010. Árið 2011 hóf hún doktorsnám og hefur stefnt að sameiginlegum gráðum, Doctor of Science (Technology) í Real Estate Business við Aalto-háskóla, School of Engineering, Department of Real Estate, Planning and Geoinformatics, Finnlandi, og Ph.D. í umhverfisfræði frá Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Eeva hefur einnig leiðbeint þremur meistaranemendum og sjö grunnnemendum með lokaritgerðir sínar auk þess að bera ábyrgð á kennslu. Áhugasvið Eevu í rannsóknum og kennslu tengjast því hvernig byggðaþróun getur stutt umhverfissjálfbærni.