
Ana María Shua rithöfundur heldur fyrirlestur um örsagnaformið í Rómönsku Ameríku, sem má rekja til fyrstu áratuga tuttugustu aldar. Hún greinir frá safni Borgesar og Bioy Casares frá árinu 1955, höfunda sem koma úr suðurhluta álfunnar, sem og verkum Arreola og Monterroso úr norðurhlutanum. Hún tæpir á þróun formsins síðastliðin þrjátíu ár og veltir einnig upp spurningunni hvar rætur örsagnaskrifa á spænsku liggja: Í Rómönsku Ameríku eða á Spáni. Einnig verður fjallað um áhrif evrópskra höfunda og muninn á örsagnaforminu í Rómönsku Ameríku og Bandaríkjunum.
Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.
Kynnir er Kristín Guðrún Jónsdóttir, lektor í spænskum bókmenntum, en hún hefur þýtt úrval örsagna eftir Önu Maríu Shua í bókinni Smáskammtar sem kemur út hjá Dimmu í tilefni af komu höfundarins hingað til lands.
Viðburðurinn er haldinn í tengslum við komu Önu Maríu Shua á Bókmenntahátíð og fer fram í samvinnu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Bókmenntahátíðar í Reykjavík og Norræna hússins.