
Sigurður Hannesson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í iðnaðarverkfræði. Heiti verkefnisins er Feedback in collective ideation How does feedback affect the development of ideas within an idea management system?.
Ágrip
Hugmyndir til nýsköpunar eru búnar til á margvíslegan hátt í nútíma fyrirtækjum. Einn vettvangur sem hefur orðið meira áberandi á síðustu árum er notkun hugmyndastjórnunarkerfa. Hugmyndastjórnunarkerfi eru yfirleitt eingöngu aðgengileg starfsfólki fyrirtækja í gegnum innranet, en í sumum tilfellum eru kerfin opin utanaðkomandi aðilum. Hugmyndastjórnunarkerfi gerir starfsfólki kleyft að deila hugmyndum sínum með öðrum starfsmönnum innan fyrirtækisins. Tilgangurinn er að koma hugmyndum á framfæri innan fyrirtækisins og nýta fjölbreytilega þekkingu einstaklinga innan fyrirtækisins til að þróa hugmyndirnar áfram, bæta gæði þeirra og gera hugmyndirnar hæfar til nýsköpunar. Í þessu meistaraverkefni hefur verið þróuð hugmynd að skilgreiningarramma til að rannsaka hvernig mismunandi þættir athugasemda við hugmyndir innan hugmyndastjórnunarkerfis hafa áhrif á þróun hugmynda. Skilgreiningarramminn nýtist sem grunnur fyrir rannsókn á gögnum frá hugmyndastjórnunarkerfi alþjóðlegs fjarskiptafyrirtækis.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á tengsl milli margra þátta athugasemdanna og gæða hugmyndanna. Endurtekin samskipti, staðfesting hugmyndar, jákvæðni og framsetning skilaboða sýna jákvæð tengsl við gæði hugmynda. Fjöldi athugasemda við hverja hugmynd hefur neikvæð tengsl við gæði hugmynda. Og að lokum getur innihald athugasemdanna, fer eftir gerð innihalds, bæði haft jákvæð og neikvæð tengsl við gæði hugmynda. Með niðurstöður rannsóknarinnar og fyrri rannsókna á sama sviði að leiðarljósi eru lagðar fram tillögur að stjórnunaraðferðum fyrir athugasemdir við hugmyndir í hugmyndastjórnunarkerfum.
Leiðbeinendur: Rögnvaldur J. Sæmundsson og Mats Magnusson
Prófdómari: Tómas Philip Rúnarsson