Quantcast
Channel: Viðburðir við HÍ - Events at the University of Iceland
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Theodore J. Kottom

$
0
0
Hvenær hefst þessi viðburður: 
1. júní 2015 - 13:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Hátíðasal
Theodore J. Kottom

Theodore J. Kottom mun verja doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum, sem ber heitið: Eftirmyndun frumuveggjar í Pneumocystis carinii – Cell Wall Remodeling in Pneumocystis carinii.

Andmælendur eru dr. Neil A. R. Gow, prófessor við University of Aberdeen, og dr. Gordon Brown, prófessor við sama háskóla.

Leiðbeinandi var Gunnar Guðmundsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk Gunnars sátu í doktorsnefnd dr. Ingibjörg Hilmarsdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, dr. Magnús Gottfreðsson, prófessor við sömu deild, dr. Andrew Limper, prófessor við Mayo Clinic,og dr. Robert Vassallo, dósent við Mayo Clinic, Minnesota.

Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.


Ágrip af rannsókn
Lungnabólga af völdum Pneumocystis (PCP) veldur umtalsverðri sjúkdómsbyrði og dauðsföllum í ónæmisbældum einstaklingum og er dánartíðni allt að 10-40%. PCP einkennist af miklu innflæði daufkyrninga og bólgu sem leiðir til skemmda á lungnablöðrum, skerðingar á loftskiptum og að lokum til öndunarbilunar. Stöðugt er verið að gera nýjar uppgötvanir á þeim leiðum sem Pneumocystis tegundir nota til að vekja kröftug bólguviðbrögð í hýslinum. Einn af mikilvægustu orsakaþáttum þessa eru β-glúkön sem eru staðar í frumuvegg Pneumocystis.
Frumuveggur Pneumocystis tegunda inniheldur mikið af glýkópróteinum og β-glúkönum svipað og er í gersveppum og öðrum sveppum. Beta-glúkön í sveppum eru aðallega gerð úr einsleitum fjölliðum af D-glúkósa með β-1,3 kjarnakeðju og breytilegum β-1,6 glúkósa tengdum hliðarkeðjum. Meðal þeirra myndunarensíma sem taka þátt í gerð þessara tveggja aðalkolvetnagerða eru Gsc-1/Fks fjölskyldan, fyrir myndun β-1,3 glúkana og Kre6 fjölskyldan, fyrir myndun β-1,6 glúkana. Lenging á β-1,3 glúkan keðjum í frumuvegg gersveppa gerist fyrir tilstuðlan ensímsins β-1,3 glukanósyltransferasa sem tilheyrir svonefndri GAS1 ensímfjölskyldu.
Í sveppum stjórnar CBK1 tilurð og aðskilnaði frumuveggjar gegnum virkjun umritunarþáttarins Ace2 og margvíslegum eftirmyndunarensímum eins og kítínösum og glúkanösum. CBK1 er hluti af RAM (Regulation of Ace2 and Morphogenesis) innanfrumuboðkerfinu.
Meginviðfangsefni þessarar doktorsritgerðar er greining og lýsing á þessum eftirmyndunar- og framleiðsluensímum frumuveggjar í Pneumocystis carinii (Pc). 

Theodore J. Kottom er fæddur árið 1970. Hann lauk BA-gráðu í líffræði frá Concordia College í Moorhead, Minnesota, og MS-gráðu í sýklafræði frá North Dakota State University. Theodore, sem hóf doktorsnám við HÍ 2014, er giftur Tonyu Kottom og eiga þau þrjú börn. 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012