
Mánudaginn 18. maí fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Þá mun Ásdís Sigmundsdóttir verja doktorsritgerð sína Building and Rebuilding the Palace of Pleasure: Translation and Rewriting in Early Modern England. Vörnin fer fram í Hátíðasal HÍ í Aðalbyggingu og hefst kl. 13:00.
Andmælendur eru prófessor Susan Bassnett við University of Warwick og prófessor Andrew Hadfield við University of Sussex. Dr. Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild, var aðalleiðbeinandi doktorsverkefnisins en í doktorsnefnd sátu auk hans dr. Gottskálk Jensson og dr. Martin Regal.
Um efni ritgerðarinnar:
Ritgerðin fjallar um safn þýddra nóvella sem William Painter tók saman árið 1566-7 og nefndi Palace of Pleasure og tengsl þess við önnur verk. Hún greinir stöðu ritsafnsins í bókmenntakerfi sextándu aldar á Englandi og hvernig það var notað af höfundum í megin bókmenntategundunum þremur, prósa, ljóðlist og leikverkum.
Í rannsókninni er lögð áhersla á að kanna verkið í heild og sýna hvaða aðferðum höfundurinn beitir til að hafa áhrif á hvernig verkið er lesið og gera það gjaldgengt innan síns nýja samhengis en það kynnti nýja bókmenntagrein, nóvelluna, í Englandi. Rannsóknin greinir þá hugmyndafræðilegu strauma sem liggja verkinu til grundvallar. Sérstaklega er fjallað um hugmyndir um þjónustuhlutverkið sem átti sér margvíslegar birtingarmyndir s.s. milli stétta og kynja.
Í seinni hluta rannsóknarinnar er hugtakið endurritun notað til að kanna tengslin á milli Palace of Pleasure og frumsaminna verka sem út komu næstu áratugi á eftir. Dæmi eru tekin af prósatextum, ljóðum og leikritum og hin mismunandi sambönd milli þeirra og nóvellusafns Painters eru greind. Þessi dæmi sýna hvernig endurritanir á nóvellunum sækjast eftir því að innlima og aðlaga hugmyndir sem finna má í þeim þannig að þau eigi erindi við nýja lesendur/áhorfendur en hafna um leið hinum erlendu rótum. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að þetta hafi verið mikilvægur þáttur í því verkefni að gera enskar bókmenntir miðlægari í evrópsku samhengi.
Um doktorsefnið:
Ásdís Sigmundsdóttir er fædd 13. júní 1973. Hún lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og MA-prófi í enskum endurreisnar bókmenntum frá University of York 1998. Meðfram doktorsnáminu hefur Ásdís starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands. Eiginmaður Ásdísar er Stefán Baldur Árnason og eiga þau tvö börn.