
Helga Lúcia Bergsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í jarðfræði. Verkefnið ber heitið Landmótun og laus jarðlög við Fláajökul.
Ágrip
Viðfangsefni verkefnisins er að kortleggja, lýsa og greina landmótun og laus jarðlög framan við Fláajökul, og kynnt er nýtt landmótunarkort af framlandi Fláajökuls. Kortið byggir á loftmyndum frá 2006 og 1989, LiDAR gögnum frá 2010 og gervitunglamynd (Landsat 8) frá 2013, auk feltathuganna. Landformin voru kortlögð með hugbúnaðinum ArcGIS 10 og kortið síðan borið saman við athuganir í felti. Landformin sem kortlögð eru mynduðust ýmist undir jökli, við jökuljaðar eða ofan á jökli auk þess sem sum voru mynduð af jökulám. Kortlögð landform og setmyndanir eru dæmigerð fyrir landmótunarumhverfi virks tempraðs jökuls. Það sem gerir framland Fláajökuls frábrugðið öðrum nútíma jafngangsjöklum er lítill jökulöldusveipur fyrir framan jökuljaðarinn sem fyrst varð vart við seint á níunda áratugnum og hefur síðan komið betur og betur í ljós vegna hlutfallslegrar hraðrar hörfunar jökulsins á síðustu tveimur áratugum. Jökulmynduðu landformin fjærst jöklinum eru frá hámarki Litlu Ísaldar seint á 19.öld og kortið gefur gott yfirlit yfir framgang og hop jökulsins og landslagsmyndanir af hans völdum síðan í byrjun 20. aldar. Mikið af jökulvatnaseti og landform sem myndast hafa undir jökli og við jökuljaðarinn, sérstaklega á vestri hluta framlandsins, ásamt sögulegum heimildum, bera vitni um erfiða baráttu heimamanna við að halda jökulvötnunum í farvegum sínum og koma í veg fyrir að þau flæddu yfir tún og heimalönd suður af jöklinum eftir að hann tók að hörfa seint á 19. öld.
Leiðbeinendur við verkefnið eru Ólafur Ingólfsson, Ívar Örn Benediktsson og Anders Schomacker.
Prófdómari er Halldór G. Pétursson.