
Föstudaginn 8. maí ver Erla Sturludóttir doktorsritgerð sína í tölfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Þróun tölfræðiaðferða til að finna breytingar í vöktunarmælingum (Statistical analysis of trends in data from ecological monitoring).
Andmælendur eru dr.Thor Aspelund, dósent við Miðstöð lýðheilsuvísinda við Háskóla Íslands og tölfræðingur hjá Hjartavernd, og dr. Anders Bignert, prófessor við Swedish Museum of Natural History.
Leiðbeinandi var dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís, dr. Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og dr. Kristín Ólafsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands.
Dr. Guðmundur Gunnar Haraldsson, prófessor og staðgengill forseta Raunvísindadeildar, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Markmið verkefnisins var að þróa tölfræðiaðferðir til að finna breytingar í tímaröðum frá tveimur vöktunarverkefnum; a) vöktun á mengun í lífríki sjávar við Ísland og b) vöktun íslenska rjúpnastofnsins. Margliðulíkön voru notuð til að greina breytingar, blönduð líkön voru notuð til að greina gögn frá mörgum vöktunarstöðum samtímis og til að taka tillit til fylgni á milli mælinga. Aðferð til að greina breytipunkta í stuttum tímaröðum með sjálffylgni var þróuð. Stofnlíkan fyrir rjúpuna sem leyfir breytipunkta var aðlagað fyrir rjúpnastofninn á NA-landi. Tölfræðigreiningarnar leiddu í ljós að styrkur þrávirkra lífrænna efna sem mældur er í kræklingi og þorski hefur farið minnkandi síðastliðin ár. Þó sáust merki um staðbundna mengun sem hægt var að rekja til hvalveiða, fiskeldis og sorpbrennslu. Breytingar í styrk snefilefna voru mjög mismunandi eftir efnum. Stofnlíkan var þróað fyrir íslenska rjúpnastofninn og metur það fjölda ungfugla og fullorðinna fugla, náttúrulega lifun og veiðiafföll. Hægt er að líkja eftir lifun með falli af þéttleika og veiðiafföllum með föllum af annaðhvort þéttleika eða fjölda veiðimanna, Einnig er hægt að setja breytipunkt inn í föllin og var það gert þegar veiðireglum var breytt árið 2003. Líkanið sýndi fram á að breyting á veiðireglum hafði áhrif með því að minnka veiðiaföll. Þó hefur markmið um að ná heildaraföllum niður í 37% ekki náðst og frekari breytingar á reglum gæti verið nauðsynleg.
Um doktorsefnið
Erla Sturludóttir er fædd í Reykjavík 13. apríl 1983. Hún lauk BS-prófi í náttúru- og umhverfisfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2008 og MS-prófi í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2011. Erla hefur sinnt kennslu í stærðfræði og tölfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands síðan 2008.