
Málþing um þýðingarýni laugardaginn 2. maí nk. í Lögbergi, st. 101, frá kl. 10-16
Meistaranemar í þýðingafræði stíga á stokk á laugardaginn til að rýna í hvernig aðrir þýðendur þýða bækur sínar og kennir þar margra og forvitnilegra grasa. Fátt segir jafn mikið um ríkjandi bókmenntasmekk og hugmyndafræði en hvernig þýðendur þýða á hverjum tíma. Og það er einn stærsti misskilningur sögunnar að þeir fari alltaf eins að og þýði sama „frumtextann“ með sama hætti. Við fáum að heyra athuganir á jafn ólíkum bókum og Dagbók prinsessu og ljóðum Yahya Hassans; kynnumst nýjum og gömlum þýðingum á Önnu í Grænuhlíð, Harry Potter fer undir smásjána og ensk þýðing á Draumalandi Andra Snæs einnig. Þýðingar á verkum klassískra höfunda á borð við John Steinbeck og Tarjei Vesaas gleymast ekki, ekki fremur en samtímahöfundurinn Erlend Loe. Þýðendurnir eru fleiri en höfundarnir og má sjá nöfn þeirra í dagskránni, en þeir þeirra sem tök hafa á að koma eru boðnir velkomnir eins og öllum áhugasömum um bókmenntir og þýðingar.
Að afloknu málþinginu fer fram kynning á nýrri þýðingu á verkum skáldsins Guttorms J. Guttormssonar, eins fremsta skálds á Nýja-Íslandi í Kanada, en nú hafa tíu leikrit hans verið þýdd á ensku og gefin út ásamt frumtextunum á íslensku. Hér er um merka útgáfu á vegum Kind Publishing í Kanada að ræða og útgáfunni fylgja úr hlaði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti, og Sveinn Einarsson, leikstjóri og fyrrum leikhússtjóri, en þau teljast í hópi þeirra sem þekkja skáldið og verk þess best.
Léttar veitingar verða síðan í boði Þýðingaseturs Háskóla Íslands.
Hvetjum alla bókmenntaunnendur til að koma í Lögberg á laugardaginn!
Dagskráin er nánar hér að neðan.
10.00-10.30
| Björg Stefánsdóttir Anna í Grænuhlíð | L.M. Montgomery Axel Guðmundsson Sigríður Lára Sigurjónsdóttir |
10.30-11.00
| Steinunn Stefánsdóttir Ljóð | Yahya Hassan Bjarki Karlsson |
11.00-11.30
| Larissa Kyzer Dreamland | Andri Snær Magnason Nicholas Jones |
11.30-12.00
| Katrín Vilborgar Gunnarsdóttir Dagbók prinsessu | Meg Cabot Edda Jóhannsdóttir |
12.00-13.00 | Hádegishlé |
|
13.00-13.30
| Tinna Björk Ómarsdóttir Harry Potter | J.K. Rowling Helga Haraldsdóttir
|
13.30-14.00
| Stefán Þór Sæmundsson Mýs og menn | John Steinbeck Ólafur Jóhann Sigurðsson |
14.00-14.30
| Silja Glömmi Maður og elgur
| Erlend Loe Hjalti Rögnvaldsson |
14.30-15.00
| Þórunn Sveina Hreinsdóttir Fuglarnir | Tarjei Vesaas Hjalti Rögnvaldsson |
15.00-16.00
| Umræður |
|
16.00-18.00
| Kynning á Tíu leikrit eftir Guttorm J. Guttormsson Léttar veitingar á eftir | Vigdís Finnbogadóttir Sveinn Einarsson o.fl. |