
Birna María B. Svanbjörnsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands
„Leadership and teamwork in a new school:
Developing a professional learning community“
fimmtudaginn 26. mars kl. 14.30 í Hátíðasal Háskóla Íslands.
Andmælendur eru dr. Jorunn Møller, prófessor við Háskólann í Ósló, og dr. Ulf Blossing, dósent við Háskólann í Gautaborg.
Leiðbeinendur voru dr. Marey Allyson Macdonald, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Guðmundur Heiðar Frímannsson prófessor við Háskólann á Akureyri. Auk þess sat í doktorsnefnd dr. Anna Kristín Sigurðardóttir dósent við Háskóla Íslands
Dr. Ólafur Páll Jónsson, deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni
Forysta og teymisvinna í nýjum skóla: Þróun lærdómssamfélags
Um er að ræða starfendarannsókn í nýjum grunnskóla í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins sem felur í sér samstarf bandavinar og tveggja skólastjórnenda í 3 ½ ár. Matshluti starfendarannsókna var notaður til að fylgjast með þróun mála.
Meginrannsóknarspurningarnar voru: a) Hvaða merkingu hefur forysta til náms í þróun starfshátta í nýjum skóla? Og b) Hvað styður og hvetur til forystu til náms? Forysta til náms vísar til þess stuðnings sem stjórnendur keppast við að veita við þróun lærdómssamfélags í skólanum.
Mismunandi stigum rannsóknarinnar var lýst og þau rædd í fjórum fræðigreinum. Meginmarkmið fyrstu greinarinnar var að draga fram og öðlast skilning á þeim viðfangsefnum sem taka þurfti á í upphafi starfs hins nýja skóla. Í annarri greininni beindist athyglin að einstaklingsmiðun sem markmiði í lærdómssamfélagi. Þriðja greinin rýnir í hvernig skólinn efldi teymisvinnu sem tæki til samstarfs og starfsþróunar. Fjórða greinin varpar ljósi á og metur hvaða áhrif sá stuðningur sem skólastjórnendur veittu starfsfólki hafði á nemendur, foreldra, stuðningsfulltrúa og skólaliða.
Ein mikilvæg niðurstaða er sú að skólinn tókst vel á við þá áskorun sem fólst í að „læra til að vera“ sem einn þeirra hornsteina náms sem UNESCO hefur skilgreint. Það var gert með teymisvinnu sem leiðandi afl samvinnu og starfsþróunar í skólanum. Skólinn stendur frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að finna leiðir til að efla nám, teymisvinnu og vöxt allra meðlima skólasamfélagsins. Ein helsta niðurstaða rannsóknarinnar, og hvað markverðasta framlag hennar, er að skólinn hefur mótað hjá sér samstarf og stuðning þar sem þátttakendum gafst tími og svigrúm til að efla fagmennsku sína á vinnustað sínum og á vinnutíma. Tvö ný og sterk einkenni lærdómssamfélags komu í ljós í hinum nýja skóla; annars vegar vel skipulögð teymisvinna og hins vegar formlegar samræður um ýmis trúnaðarmál á teymisfundum
Um doktorsefnið
Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir starfar sem forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og lektor við kennaradeild sama skóla. Hún lauk B.Ed. námi frá Kennaraháskóla Íslands 1988 og M. Ed. námi frá Háskólanum á Akureyri 2005. Viðfangsefni hennar í starfi og rannsóknum tengjast námi í víðum skilningi. Í því felst skólaþróun, starfsþróun og starfshættir í skólastarfi sem stuðla að námsaðlögun, virku námi og lærdómssamfélagi, svo sem teymiskennslu, jafningjastuðningi, forystu og ígrundun. Eiginmaður Birnu er Gunnar Þór Gunnarsson hjartalæknir. Dætur þeirra eru Oddný Gunnarsdóttir háskólanemi og Sóley Gunnarsdóttir grunnskólanemi.