Quantcast
Channel: Viðburðir við HÍ - Events at the University of Iceland
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012

[Félag íslenskra fræða] Vésteinn Ólason: Allt orkar tvímælis þá gert er – að gefa út eddukvæði

$
0
0
Hvenær hefst þessi viðburður: 
25. febrúar 2015 - 20:00
Nánari staðsetning: 
Hljóðberg, Hannesarholti, Grundarstíg 10
Háskóli Íslands
Á fyrsta rannsóknarkvöldi Félags íslenskra fræða að vori flytur Vésteinn Ólason erindið: Allt orkar tvímælis þá gert er – að gefa út eddukvæði. Í erindinu mun Vésteinn segja stuttlega frá aðdraganda þess að þeir Jónas Kristjánsson gáfu út eddukvæði fyrir Hið íslenzka fornritafélag og ræða um forsendur útgáfunnar. Útgefandinn þarf sífellt að velja: velja hvernig á að umrita texta handritanna, hvernig eigi að stafsetja, hvernig eigi að skilja einstök orð og setningar. Ef vikið er frá texta handrita þarf að ákveða hvernig, og hvernig eigi að réttlæta það. Oft er milli margra skýringa að velja, en rýmið fyrir skýringar er takmarkað. Í öllu þessu er verið að taka tillit til væntanlegs lesendahóps; hann verður vonandi fjölbreytilegur, en þó verður að reyna að sjá hann fyrir sér og mæta þörfum hans. Allt kemur þetta líka til álita þegar saminn er formáli: hvað á að fjalla um þar, hve langt á að ganga í að gera grein fyrir eldri kenningum, hve mikla áherslu á að leggja á einstaka þætti, svo sem bragfræði, stíl, sögu efnisþátta og tengsl við önnur kvæði, heildarmerkingu og túlkun? Ef verkið á ekki að frestast út yfir gröf og dauða verður að taka ákvarðanir, höggva hæl og tá, taka áhættu, svo að ekki fari eins og eitt sinn var kveðið í þunglyndiskasti á myrkum degi: Við störf vor einatt besti vilji bregst, þótt baksi við þau margur góður drengur. Það klárast aldrei neitt, það dregst og dregst, uns Dauðinn getur ekki beðið lengur. Dr. Vésteinn Ólason er fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og gegndi áður stöðu prófessors við Háskóla Íslands. Hann á langan feril að baki sem höfundur fræðirita og ritaði formála Eddukvæða I-II í ritröð Hins íslenzka fornritafélags sem komu út á síðasta ári.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 3012