
Margrét Bessadóttir ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum, sem ber heitið:
Áhrif fléttuefnanna úsnínsýru og prótólichesterínsýru á orku- og fituefnaskipti í krabbameinsfrumum eða The effects of the lichen metabolites usnic acid and protolichesterinic acid on energy and lipid metabolism in cancer cells.
Andmælendur eru dr. Atso Raasmaja, dósent við Háskólann í Helsinki, og dr. Pétur Henry Petersen, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands.
Umsjónarkennari var dr. Helga Margrét Ögmundsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi í verkefninu var dr. Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Suzanne A. Eccles, prófessor við The Institute of Cancer Research í London. dr Haraldur Halldórsson, sérfræðingur á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir, nýdoktor við læknadeild Háskóla Íslands.
Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip
Fléttur, sem eru sambýli sveppa og þörunga eða blábaktería, hafa verið notaðar í alþýðulækningum við ýmiss konar kvillum frá örófi alda. Úsnínsýra (UA), einangruð úr hreindýrakrókum, er prótónuskutla og getur haft áhrif á himnuspennu í hvatberum og hindrað fjölgun og vöxt ýmissa krabbameinsfrumulína. Niðurstöður þessa verkefnis gefa til kynna að UA trufli sýrustigul í hvatberum og lýsósómum, afleiðing af því er minnkuð orkuframleiðsla og léleg endurnýting efna í frumunni. Líklegt er að fjölgunarhemjandi áhrif UA skýrist aðallega af prótónuskutlu eiginleikum hennar. Prótólichesterínsýra (PA), einangruð úr fjallagrösum, verkar á lípið og er 5- og 12-lípoxygenasa hindri. Hún hefur fjölgunarhemjandi áhrif á ýmsar gerðir krabbameinsfruma en lítil áhrif á eðlilegar frumur. Niðurstöður doktorsverkefnisins gefa til kynna að vaxtarhemjandi áhrif PA skýrist ekki af hindrun á lípoxygenasa. PA dró úr tjáningu á viðtaka fyrir vaxtarþætti og tengist það líklega hindrun fituframleiðslu í æxlisfrumum. Einnig fengust vísbendingar um bein áhrif PA á DNA framleiðslu. PA gæti því hindrað frumufjölgun með áhrifum á vaxtarboð og beinni hindrun á DNA eftirmyndun. Einnig kom fram samvirkni milli fléttuefnanna og þekktra krabbameinslyfja í brjóstakrabbameinsfrumum. Því er vert að rannsaka frekar samsetta meðferð með hefðbundnum krabbameinslyfjum og efnasamböndum sem eru einangruð úr fléttum.
Um doktorsefnið
Margrét Bessadóttir er fædd árið 1980. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1999 og kandidatsprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Margrét innritaðist í doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2008. Hún er búsett í Reykjavík og á tvær dætur, Kötlu og Ásu Kristínu.