
Zoltán Fülöp ver doktorsritgerð sína í lyfjavísindum er nefnist: Sýklódextrín-nanóagnir sem lyfjaferjur - Self-assembly of cyclodextrins and cyclodextrin nanoparticles.
Andmælendur eru dr. Dominique Duchêne frá Université Paris-Sud og dr. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi í verkefninu var dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Ruxandra Gref frá Parísarháskóla og dr. Kim Lambertsen Larsen frá Álaborgarháskóla, ásamt prófessorunum Hákoni Hrafni Sigurðssyni og Einari Stefánssyni frá Háskóla Íslands, en Einar var jafnframt formaður doktorsnefndar.
Dr. Már Másson, deildarforseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip
Doktorsverkefnið fjallar um hönnun sýklódexstrín-nanóagna og notkun þeirra sem lyfjaferja. Nanóagnir myndast í vatnslausn við hópun sýklódextrínsameinda. Hópmyndunin er venjulega jafnvægisástand þar sem sýklódextrínsameindir í nanóögnunum eru í jafnvægi við sameindir í lausn. Til að hægt sé að nota sýklódextrín-nanóagnir sem lyfjaferjur verður að auka stöðugleika þeirra í vatnslausn. Í fyrsta hluta verkefnisins var hópun lyfja rannsökuð. Rannsakað var hvernig krabbameinslyfið doxórúbicín hópar sig saman í vatnslausn og myndar nanóagnir. Í öðrum hluta verkefnisins var hópun sýklódextrín-fjölliða rannsökuð í vatnslausnum og hæfni nanóagnanna sem mynduðust til að binda lyfjasameindir metin. Í þriðja og síðasta hluta verkefnisins voru nanóagnir myndaðar með því að tengja sýklódextrín með neikvæða hleðslu (þ.e. súlfóbútýleter β-sýklódextrín) við fjölliður með jákvæða hleðslu (þ.e. prótonerað kítósan). Í vatnslausn mynduðust nanóagnir þegar sýklódextrínsameindir mynduðu jón-brýr milli sameinda fjölliðanna. Stöðugleiki nanóagnanna sem mynduðust var háður lengd (þ.e. mólþyngd). Kítósan með mólþyngdina 10 kDa myndaði nanóagnir með frekar takmarkaðan stöðugleika en ef mólþyngdin var aukin í 110 kDa mynduðust stöðugar nanóagnir sem gátu bundið og látið frá sér lyfjasameindir. Þvermál þeirra var á bilinu 100 til 200 nm. Í verkefninu voru einnig þróaðar ýmsar mæliaðferðir sem notaðar voru til að rannsaka hópmyndunina og eðlisefnafræðilega eiginleika nanóagnanna sem mynduðust.
Um doktorsefnið
Zoltán Fülöp er fæddur árið 1985. Hann hóf nám við Budapest University of Technology and Economics í Ungverjalandi árið 2004 og lauk MSc-prófi í efnaverkfræði vorið 2011. Zoltán hóf doktorsnám við Háskóla Íslands vorið 2011.